Image

Um okkur

Örtækni var stofnað árið 1976. Á upphafsárum félagsins var Örtækni í samstarfi við Háskóla Íslands um þróun og framleiðslu á vogum fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Síðar var fyrirtækið Marel stofnað um þá framleiðslu. Gjaldmælar fyrir leigu- og sendiferðabíla voru hannaðir og framleiddir um langt skeið og annaðist starfsfólk Örtæknis viðhaldsþjónustu og uppfærslu á hugbúnaði í mælunum. Árið 1990 hóf Örtækni að flytja inn hágæða netsnúrur og tölvutengi frá þekktum evrópskum framleiðendum. Örtækni hefur í kjölfarið sérhæft sig í smíði og samsetningu á öllum gerðum tölvu- og netkapla auk þess að bjóða upp á mikið úrval af tengibúnaði fyrir tölvu- og tæknibúnað af öllum stærðum og gerðum. Stór hluti starfseminnar er samsetning á flóknum búnaði fyrir hin ýmsu fyrirtæki sem oftar en ekki tengjast sjávarútvegi. Örtækni vinnur með mörgum af framsæknustu fyrirtækjum landsins og þjónustar öll helstu tækni- og iðnfyrirtæki á Íslandi. Örtækni hóf innflutning á hug- og vélbúnaði fyrir fatlað fólk árið 1980. Örtækni er í dag einn helsti umboðs- og innflutningsaðili fyrir hug- og vélbúnað fyrir fatlað fólk sem býr við skerta getu á einhverju sviði. Árið 1985 stofnaði Örtækni ræstingadeild sem sér um daglegar ræstingar jafnt fyrir stofnanir sem einkafyrirtæki.